Hvers vegna er farsæl endurkoma til vinnu brýnt úrlausnarefni?

Employer

4: Endurkoma til vinnu

Hvers vegna er farsæl endurkoma til vinnu brýnt úrlausnarefni?

Lögbundnar skyldur

Vinnuaflið eldist stöðugt en líkur á langvarandi heilsubresti og örorku aukast með aldrinum. Af þessum sökum verða aðgerðir til að tryggja farsæla endurkomu til vinnu sífellt mikilvægari. Það er vinnuveitendum í hag að styðja fólk til að snúa aftur til starfa eins fljótt og auðið er eftir veikindi eða slys og að hjálpa langveiku starfsfólki að haldast í vinnu. Í þessu getur t.d. falist að vinnustaðnum er breytt til að koma til móts við þarfir starfsmannsins tímabundið eða til framtíðar eða hann fær þjálfun til að taka við nýjum verkefnum sem hæfa breyttri starfsgetu hans.

Úrræði til að koma til móts við þarfir fatlaðs fólks á vinnustað skipta sköpum í baráttu gegn mismunun á grundvelli fötlunar. Í ESB ber vinnuveitendum lögbundin skylda til að fara að meginreglunni um jafnrétti á vinnustað og m.a. tryggja „sanngjarna aðlögun“ vinnustaðarins að þörfum fatlaðs starfsmanns. Í þessu gætu t.d. falist umbætur á húsnæði og búnaði, aðlögun vinnutíma og verkaskiptingar eða sérstök þjálfun. Á Íslandi er ekki kveðið sérstaklega á skyldur vinnuveitenda í tengslum við aðlögun á vinnustað en lög um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992 kveða á um að veita skuli fötluðu fólki aðstoð til að sinna störfum á almennum vinnumarkaði þegar þess gerist þörf. Skal það gert með sérstakri liðveislu á vinnustað, svo og fræðslu og leiðbeiningum til annars starfsfólks. Einnig segir í lögunum að fatlað fólk skuli eiga forgang að atvinnu hjá ríki og sveitarfélagi ef hæfni þess til starfsins er meiri eða jöfn hæfni annarra sem um starfið sækja.

Ávinningur atvinnurekenda af því að tryggja farsæla endurkomu til vinnu

Eftir því sem starfsmenn eru lengur frá vinnu þeim mun erfiðara finnst þeim að snúa aftur og líkur á árangursríkri starfsendurhæfingu minnka hlutfallslega.  

Aðgerðir til að stuðla að snurðulausri endurkomu til vinnu gagnast vinnuveitendum á margan hátt:

  • Færni og þekking starfsmannsins helst á vinnustaðnum;
  • Framleiðni minnkar síður;
  • Sparnaður hlýst af því að ekki þarf að ráða og þjálfa nýtt starfsfólk; og
  • Starfsandi á vinnustaðnum er betri en ella.

Hvernig má tryggja farsæla endurkomu til vinnu? (Næsti kafli)