Forsendur árangursríkrar heilsueflingar á vinnustað

HR Manager

3: Heilsueflandi vinnustaðir

Forsendur árangursríkrar heilsueflingar á vinnustað

Hlutverk stjórnenda

Stjórnendur verða að styðja áætlun um heilsueflingu á vinnustað til að hún skili árangri. Þeir verða að tryggja að heilsuefling sé samþætt við alla stefnu fyrirtækisins og að nægu fé og mannafla sé veitt til hennar.  Enn fremur verður stuðningur stjórnenda að vera sýnilegur og þeir ættu að ganga á undan með góðu fordæmi - til dæmis með því að taka þátt í heilsueflingu og með því að deila persónulegri reynslu sinni af heilsufarsáskorunum og leiðum til að mæta þeim, o.s.frv. 

Samþætting vinnuverndar og heilsueflingar á vinnustað

Áður fyrr litu menn á vinnuvernd og heilsueflingu á vinnustað sem tvö ólík svið og töldu að heilsuefling á vinnustað fælist einkum í aðgerðum til að stuðla að heilbrigðum lífsstíl starfsfólks. Í dag spannar heilsuefling á vinnustað mun víðara svið sem tekur til ýmissa vinnuverndarmála, s.s. vinnuskipulags, og andlegrar og líkamlegrar heilsu.

Rannsóknir sýna að heildstæð stefna og framkvæmd sem tekur bæði á vinnuumhverfinu (vinnuvistfræðilegum þáttum og vinnuskipulagi) og einstaklingsbundinni heilsufarsáhættu starfsfólks er árangursríkt tæki til að koma í veg fyrir sjúkdóma og bæta hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Lykilþættir áætlana um heilsueflingu á vinnustað

UNDIRBÚNINGUR

  • Stofnun vinnuhóps sem ber ábyrgð á heilsueflingu á vinnustað. Í hópnum ættu að sitja fulltrúar yfirstjórnar, starfsfólks, mannauðsstjóri, og sérfræðingur í  vinnuvernd;    
  • Vitundarvakning og virkjun allra starfsmanna til að taka þátt í  heilsueflingu á vinnustað. Fáðu starfsfólk til að tala um heilsueflinguna - notaðu fjölbreyttar aðferðir (t.d. vinnuhópa og veggspjöld) og leggðu áherslu á kostina; og 
  • Samhæfing við fyrirliggjandi vinnuverndarráðstafanir: Heilsuefling á vinnustað er skilvirkust þegar hún styður við vinnuverndarráðstafanir sem þegar eru til staðar.

SKIPULAG

  • Mat á þörfum og væntingum starfsfólks með spurningakönnunum og með því að spyrja starfsmennina sjálfa beint í rýnihópum;
  • Skýr markmiðssetning sem samræmist stefnu og markmiðum fyrirtækisins;
  • Ein víðtæk áætlun í stað margra smærri átaksverkefna;
  • Þátttaka utanaðkomandi aðila tryggð ef þörf krefur, s.s. lækna, tryggingafyrirtækja og íþróttafélaga; og
  • Fjölbreytileiki starfsmanna er tekinn með í reikninginn: Áhugi starfsmanna er mjög mismunandi – brýnt er að hafa það hugfast þegar þeir eru hvattir til þátttöku.

INNLEIÐING

  • Yfirstjórn verður að ganga á undan með góðu fordæmi til að hvetja starfsmenn til dáða og auka þátttöku;
  • Virkt samráð við starfsfólk og því umbunað fyrir þátttöku; og 
  • Upplýsingar og kynningarefni lagað að markhópnum. 

MAT Á ÁRANGRI

  • Greining á áhrifum á starfsánægjuog á fyrirtækið í heild;
  • Fjárhagslegur ávinningur metinn: Tölulegir vísar (t.d. minni fjarvistir) eða huglægir vísar (t.d. áhrif bættra samskipta á framleiðni);
  • Miðlun niðurstaðna og árangurs; og
  • Endurskoðun og endurbætur: Heilsuefling á vinnustað er ferli sem er í stöðugri þróun.

Hér að finna dæmi um áætlanir nokkurra fyrirtækja og stofnana um heilsueflingu á vinnustað.