Árangursrík stefna um endurkomu til vinnu

HR Manager

4: Endurkoma til vinnu

Árangursrík stefna um endurkomu til vinnu

Árangursrík stefna um farsæla endurkomu til vinnu byggir á eftirfarandi þáttum: 

  • Fjarvistaskráning og markmiðasetning: Mikilvægt er að fylgjast með fjarvistum til að greina hvar þörf er á inngripi. Skýr markmið um farsæla endurkomu til vinnu (t.d. endurskoðaðar áætlanir um afköst, sparnaður vegna minni fjarvista, o.s.frv.)varpa ljósi á hvort stefnan virkar sem skyldi og hvar umbóta er þörf.    
  • Uppbyggilegt andrúmsloft á vinnustaðnum: Endurkomu til vinnu þarf að ræða á opinn og uppbyggilegan hátt. Opinská umræða hvetur starfsmenn til að láta strax vita af heilsubresti, sem eykur líkurnar á árangursríkri endurkomu til muna. Einnig þarf að upplýsa samstarfsmenn um ástæður aðlögunar á vinnustað án þess þó að rjúfa trúnað við starfmanninn sem þarfnast aðlögunarinnar. 
  • Leit að orsökum endurtekinna veikinda og slysa og úrbætur: Nauðsynlegt er að vinna með sérfræðingum í vinnuvernd og heilbrigðisþjónustu til að finna orsakir veikinda og slysa á vinnustaðnum og gera viðeigandi ráðstafanir. 
  • Regluleg samskipti við alla sem koma að málum: Brýnt er að vera í reglulegum samskiptum við starfsmanninn og stuðningsaðila allt endurkomuferlið, t.d. vinnuveitandann, vinnuverndar- og starfsendurhæfingarsérfræðinga og sjúkraþjálfara. Það fer eftir starfseminni og aðstæðum hverju sinni hverjir koma að málum en tryggja verður persónuvernd í öllum tilvikum .
  • Ráðstafanir til að auðvelda endurkomu starfsmannsins: Nauðsynlegt er að ræða við starfsmanninn um þarfir hans áður en hann snýr aftur til vinnu. Gera verður áætlun, í samráði við starfsmanninn, um aðlögun á vinnustað til að mæta þörfunum hans eins og hægt er. Breytingar á vinnustað gætu t.d. falist í aðlögun á vinnustöð, sveigjanlegum vinnutíma, t.d. til að gera starfsmanninum kleift að sækja endurhæfingu eða tíma hjá lækni, og minni kröfum um afköst.   
  • Eftirfylgni: Brýnt er að fylgjast vel með hvernig starfsmanni gengur að snúa aftur til vinnu. Gott er að ræða reglulega við hann um hvort aðlögun á vinnustað nái tilætluðum árangri eða hvort þörf sé á meiri stuðningi. Einnig getur verið gagnlegt að árétta við starfsmanninn að hann láti vita ef heilsufar breytist – svo unnt sé að bregðast strax við.

Dæmi um fyrirmyndarverkefni